Föstudagur, 23. janúar 2015
Nú kemur að því sem snýr að útlitshönnun inni í húsbílnum: panelplöturnar
Lokahnykkurinn á framkvæmdum helgarinnar var að ég tók panelplöturnar innan úr hliðunum heim með mér til að ganga frá þeim fyrir uppsetningu. Á dagskrá er að bólstra þá stóru sem kemur upp við rúmið ofanvert, af því að ég kem til með að liggja upp við hana þegar ég sef. Undir áklæðið fer annað hvort þunnur svampur eða pólýestervatt. Held að ég festi áklæðið með teygjum að aftan og hnöppum að framan frekar en að líma eða hefta það niður, svo það verði auðvelt að skipta um það eða taka það niður til að þvo það án þess að skemma plötuna.
Hin stóra platan verður hálf á bak við eldhúsinnréttinguna og partur af henni verður næst vaskinum, þannig að ég held að ég fái mér vatnshelt plastveggfóður á hana. Hugsa að ég velji mér veggfóður með beykiáferð, þó það sé reyndar freistandi að kaupa eitthvað annað. Það kemur líka til greina að lakka hana.
Það kemur ýmislegt til greina með plöturnar sem fara í rennihurðirnar ofanverðar. Eitt væri að mála þær báðar með krítartöflumálningu. Það sem mælir á móti því er að krítartöflumálningin er svört og með uppsetningunni á teppinu er orðið frekar dimmt aftur í bílnum, og svo er rúmið þannig staðsett að það verður ekkert sérstaklega auðvelt að komast að rennihurðinni til að kríta fallega á plötuna. Það er raunar hægt að fá græna krítartöflumálningu í Litir og föndur en hún passar bara ekki við neitt inni í bílnum og því keypti ég svarta. Þetta eru einu litirnir á krítartöflumálningu sem ég hef fundið hérna innanlands, en það er reyndar hægt að fá hana í öðrum litum erlendis, t.d. rauðum eða bláum. Þó að það sé hægt að blanda heimatilbúna krítartöflumálningu í lit að eigin vali, þá held ég að ég nenni ekki að standa í því af því að vandamálin eru hreinlega allt of mörg (hér eru nokkur dæmi).
Annar kostur væri að bólstra eða tauklæða hurðarplötuna rúmmegin, lakka hana eða veggfóðra. Það væri t.d. skemmtilegt að prenta einhverja fallega landslagsmynd og líma á hana til að búa til þykjustuútsýni, nú eða líma á hana kort. Ég bar lítið Íslandskort við hana og uppgötvaði að hlutföllin voru því miður röng ef ég vildi fá allt landið inn á plötuna án þess að neitt stæði út af og hvergi glitti í bera plötuna. Önnur pæling var að gera hana að segultöflu, en smá gúgl leiddi í ljós að segultöflumálning tekur bara mjög létta segla. Korktafla er enn einn möguleikinn. En kannski ég fái mér bara vegglímmiða á hana til að byrja með.
Ég þigg aðrar hugmyndir ef einhver vill láta þær í ljós
Hvað sem ég geri, þá verður platan í hurðinni farþegamegin krítartöflumáluð.
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 4
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 32977
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Af hverju þarftu kritartöflu,heldurðu að þú munir ekki hvert þú ætlaðir næsta dag?
hafst@visir.is 24.1.2015 kl. 23:50
Krítartafla bíður upp á að teikna eða skrifa etthvað skemmtilegt, sem er síðan hægt að þurrka út þegar maður fær leið á því.
JG, 25.1.2015 kl. 17:35
Hvernig væri að skella einni af ljósmyndunum þínum á hurðarplötuna, það þætti mér alveg tilvalið. Er mögulegt að útbúa plötuna þannig að hægt væri að skipta út mynd án mikillar fyrirhafnar - td einhverskonar ramma?
Svava 26.1.2015 kl. 16:09
Ég er að hugsa um að hafa plötuna í hurðinni bílstjóramegin - þeirri sem ekki verður gengið um - þannig að ég lími eða skrúfi nokkrar klemmur efst á hana, sem er hægt að nota til að halda t.d. myndum eða póstkortum. Lími síðan kannski nokkra segla á hana líka, sem er hægt að nota á sama hátt og klemmurnar ef maður er með segul beggja vegna við það sem á að halda föstu. Platan er með beykiáferð, enda söguð út úr gömlu skápbaki, og ég held ég máli hana ekki, heldur láti þá áferð haldast, a.m.k. til að byrja með.
JG, 26.1.2015 kl. 21:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.