Föstudagur, 19. desember 2014
Nýjustu fréttir af húsbílaframkvæmdum
Ég kom til mömmu og pabba í mat um daginn og uppgötvaði að þó lítið hafi gerst í framkvæmdum í bílnum undanfarið, þá hefur pabbi ekki setið iðjulaus. Hann virðist hafa farið hamförum á eBay og er búinn að kaupa alls konar dót, þar á meðal tengla og mæla af ýmsu tagi, bæði fyrir mig og sig (þetta var svo ódýrt að ég pantaði þrjú stykki, eitt í þinn bíl, eitt í okkar og eitt til vara).
Svo er hann búinn að fá í hendurnar skrúfur með töppum sem hann pantaði í síðasta mánuði til að festa panelplöturnar í bílinn. Þær eru eins á litinn og þær sem voru fyrir í bílnum, en aðeins stærri, sem er víst ekkert verra.
Núna síðast litu þau mamma inn í Góða hirðinn og komu þaðan út með tempúrdýnu (10.000 kr.) og eldhúsvask úr stáli (1.000 kr.). Dýnan fór inn í bíl og er grjóthörð í frostinu, enda veltur stífleikinn á tempúrdýnum víst á umhverfishita. Pabbi ætlar svo að taka vaskinn í sundur og nota skolvaskinn og hluta af vaskaborðinu í húsbílinn. Vaskurinn er frekar ljótur eins og er en verður fínn þegar búið er að sníða hann til, þrífa og fægja.
Svo þarf að snikka til dýnuna og taka úr henni fyrir hjólskálinni, og þá get ég tekið mig til og saumað utan um hana.
Ég er að vonast til að það hlýni yfir hátíðarnar og haldist þurrt svo við getum farið að gera eitthvað í bílnum á meðan ég er í fríi (16 dagar, hvorki meira né minna). Annars liggur ekkert á ég kemst ekki af stað á honum í vetrarfærðinni hvort sem er og hef reyndar takmarkaðan áhuga á að sofa í honum í vetrarkuldanum.
Hvað hinn bílinn minn varðar, þá var hann heima hjá mömmu og pabba á meðan hann beið þess að verða tekinn í aflestur hjá Toyota-umboðinu. Á meðan var ég á jeppanum hans pabba, og það er enginn slyddujeppi, heldur MMC Pajero, mikill reynslujálkur sem skilaði mér vel í vinnuna og á milli staða í jólaútréttingum í hríðinni og slabbinu í vikunni. Þetta var svolítið eins og að hafa skipt út fjörugum smáhesti fyrir hægfara en traustan gamlan burðarhest, en þó það sé gott að hafa jeppa í svona færð er enn betra að vera komin aftur á minn eigin bíl, sem ég þekki betur og er öruggari á.
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 4
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 32977
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.