Innkaup fyrir húsbílinn, eða nú er tími til að stilla sig aðeins...

Ég skrifaði um daginn um listana mína yfir það sem þarf eða er gott að hafa í húsbíl. Eftir að ég var búin að semja listann yfir eldhúsbúnað og merkja við eftir minni hvað var til fór ég í eldhússkápana mína og -skúffurnar og athugaði hvað ég átti meira til.

Í rauninni vantar mig engan eldhúsbúnað fyrir bílinn - þetta er allt til á heimilinu. Ég á meira að segja útilegueldunarsett (2 potta, pönnu og ketil) sem ég keypti fyrir hringferðina góðu. Ýmislegt af því sem ég á í eldhúsinu mínu heima hentar hins vegar ekki í húsbíl. Sumt af því er t.d. hreinlega helst til stórt, því í bílnum verður takmarkað geymslupláss.

Svo finnst mér að þó að mömmu hafi tekist að nota diska, skálar, glös og könnur úr postulíni, leir og gleri án þess að neitt brotnaði á skrölti þeirra pabba á sínum húsbíl um holótta vegi landsins, þá henti mér betur að nota ílát úr plasti og/eða ryðfríu stáli.

Ég er nefnilega stundum svolítill klaufi.

Það koma tímabil þegar ég glopra öllu út úr höndunum á mér og brýt og bramla bæði innanstokksmuni og matarílát fyrir einskæra gleymsku og hugsunarleysi og ef slíkt tímabil félli saman við húsbílaferðalag gæti það orðið til þess að ég gleymdi að loka skáp og allt mundi hrynja út og brotna þegar ég æki af stað. (Engar áhyggjur: þetta ástand hefur ekki áhrif á aksturslagið hjá mér. A.m.k. hef ég engan drepið og er sjálf enn í fullu fjöri).

Þess vegna ákvað ég að nota stál og plast eins mikið og ég get.

Ég gramsaði í eldhússkápunum og dró fram stálbakka og tvö stálglös sem ég keypti á sínum tíma úti á Indlandi og hef ekki notað mikið. Einnig fann ég löngu gleymda tekönnu úr melamíni og góðan plastdisk og einhvers staðar á ég að eiga súpuskál í stíl, ef ég bara gæti fundið hana. Þetta fór ofan í kassa, kyrfilega merktan húsbílnum, ásamt hitakönnu fyrir kaffi frá einni af bensínstöðvakeðjunum sem mér var gefin en hef aldrei notað.

Svo á ég helling af alls konar skrautlegum og skemmtilegum dósum og dollum sem koma nú til með að nýtast undir hitt og þetta í bílinn, t.d. tedósir sem ég tímdi ekki að henda þegar þær tæmdust og sem mætti lakka í fallegum litum og nota undir t.d. hrísgrjón, sykur, baunir og önnur þurr matvæli.  Ókosturinn við málminn er auðvitað að það glymur í honum, en það er einfalt mál að laga það með því að leggja servíettur (nú eða heklaðar dúllur, sem ég á nóg af) á milli hluta svo að þeir skelli ekki saman.

Tedósirnar eru einstaklega vel til þess fallnar að nota þar sem er lítið pláss til að moða úr, því þær eru kassalaga og falla þétt saman og nýta plássið mun betur en sívalningar. Ég er nú samt að hugsa um að safna saman nokkrum Pringles-dósum til að nota undir t.d. plastpoka, þvottaduft og klemmur og annað smálegt sem ekki er matarkyns.

Síðan rakst mín inn í Góða hirðinn og fann þar salatskál, matardisk og nokkrar minni skálar, allt úr ryðfríu stáli, sem mér fannst fyrirtak að fá mér, sumt í húsbílinn og annað í eldhúsið, því ég er smám saman að skipta út plastdollum (og tilteknum glerílátum) fyrir stál heima hjá mér, því það er auðveldara að halda stálinu fallegu (og svo brotnar það ekki ef maður missir það á gólfið). Plastið rispast auðveldlega og glerið verður smám saman matt af kíslinum í vatninu hérna og þó að það setjist líka kísill á stálið er miklu minna mál að ná honum af málmi en gleri. Áætlunin er sú að á endanum verði einu matarílátin úr plasti á heimilinu þau sem ég nota undir frystivörur. En þetta var útúrdúr.

Hjá Hirðinum góða fann ég líka svo til ónotaða litla handkvörn með tveimur stærðum af rifjárnum. Hún er fín til að rifa ost og gulrætur og annað matarkyns. Samt var ég næstum búin að kaupa lítið standandi rifjárn með fjórum hliðum (fínt, gróft, raspur og sneiðari) þegar ég skrap í Rúmfatalagerinn um daginn, en skynsemin náði yfirhöndinni og ég fór tómhent út.

Ég þurfti að stilla mig um að pakka niður í kassann góða gamalli kaffikönnu (ein af þessum blá-emaleruðu) sem ég hef upp á punt í eldhúsinu hjá mér, bara af því að það var svo spennandi að tína til dót í bílinn. Málið er að ég hef bara enga þörf fyrir að geta hellt upp á lítra af kaffi í einu. Það er mikið betra að nota lítinn hitabrúsa til að hella upp á kaffi í.

Það verður erfitt að forðast að kaupa og kaupa endalaust, en ég ætla að reyna, þar til reynsla kemst á þetta allt saman, að halda mig við að kaupa það sem vantar í alvörunni, láta hitt bíða og bera í millitíðinni það sem ég á til á milli bílsins og eldhússins. Þetta er reyndar allt tiltölulega ódýrt, þannig að ég get alltaf skroppið í búð og keypt það sem vantar þegar ég uppgötva þörfina fyrir það. Það verður samt erfitt að koma inn í Góða hirðinn, Rúmfatalagerinn, Ikea og búsáhaldaverslanir án þess að kaupa eitthvað. Sem betur fer er ég dottin úr öllu sambandi við Tupperware-samfélagið. Það hefði getað orðið dýr pakki.

Reyndar ætlar mamma að líta yfir listana og athuga hvort hún er aflögufær með eitthvað, því þau pabbi eiga þrennt af sumu. Áður en þau fluttu alfarin í Kópavoginn héldu þau nefnilega um nokkurra ára skeið heimili í tveimur landshlutum, auk þess að vera með húsbíl, og því eru til aukaeintök af hinu og þessu. Sumt fékk bróðir minn þegar hann fór að búa, annað var gefið, en sumt er enn til.

Tiltekna hluti verður hins vegar léttir að losna við úr eldhúsinu. T.d. hefur mér verið gefið svo mikið af viskastykkjum í gegnum tíðina að ég held að ég hafi aldrei náð að nota þau öll.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 32977

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband