Þriðjudagur, 21. október 2014
Skutlur, skutlur, allt um kring
Er það ekki skrítið þegar maður fer að hugsa um eitthvað sem maður hefur aldrei pælt í áður og allt í einu er það alls staðar í kringum mann?
Ég er lengi búin að láta mig dreyma um að eignast húsbíl, því ég nenni ekki lengur að gista í tjaldi á ferðalögum innanlands, og það er dýrt að gista á gistihúsum og hótelum. Það var því augljóst mál að húsbíll væri lausnin fyrir mig, því hann sameinar þægindi þess að gista innandyra og og ódýra gistingu. Ég hef hins vegar ekki efni á að kaupa húsbíl fyrr en ég er búin að greiða upp stærsta húsnæðislánið mitt, sem verður í kringum 2017. Eftir það tekur síðan nokkur ár að safna fyrir bílnum.
Húsbílar eru nefnilega dýrir, og það er líka dýrt að reka tvo bíla, því jafnvel þó maður noti annan ekki nema part úr árinu og taki hann jafnvel af númerum yfir veturinn, þá kostar samt að eiga hann. T.d. er ekki sniðugt að láta svona tæki standa úti og þarf helst að geyma þau í upphitaðri geymslu, sem kostar sitt. Svo eru margir húsbílar, jafnvel þeir minni (s.s. Ford Econoline) dýrir í rekstri því þeir eru ekki beint eyðslugrannir (Econo hvað?).
Svo var það í fyrra eða hittífyrra að ég las frétt um nýja bílaleigu, Happy Campers, sem leigir út húsbíla sem eru byggðir á litlum sendiferðabílum, svokölluðum skutlum. Ég hugsaði svo sem ekki meira um það, annað en Já! Þetta gæti verið sniðugt fyrir mig!
Í vor aðstoðuðu foreldrar mínir síðan bróður minn fjárhagslega til að eignast fjallajeppa og pabbi tilkynnti mér síðan að nú væri komið að mér: þau mundu hjálpa mér að eignast húsbíl, og hann ætlaði sér að sjá um að innrétta hann (ég held að hann vanti eitthvað til að gera í vetur...).
Ég treysti honum vel til þess verks, enda er hann þegar búinn að innrétta einn húsbíl, og það svo snilldarlega að núna, 20 árum síðar, hef ég enn ekki komið inn í húsbíl sem var jafn haganlega innréttaður.
Auðvitað kom ekkert annað til greina en að kaupa skutlu, og plúsinn við hana er að ég get notað hana sem heimilisbíl því þessir bílar eru svo litlir að það er ekkert mál að leggja þeim í venjuleg bílastæði, og svo neyslugrannir að ég mundi spara á því að skipta út Toyotunni minni fyrir svona bíl. Ókosturinn er reyndar að þeir eru flestir beinskiptir og mér leiðist svoleiðis í innanbæjarakstri, en það má vel yfirstíga með því að nota bílinn minna innanbæjar og ganga eða hjóla í staðinn.
Athugun leiddi í ljós að það er um ýmsa kosti að velja:
Volkswagen Caddy Maxi:
Ford Transit Connect:
Mercedes-Benz Citan:
Citroën Berlingo:
Peugeot Partner:
Renault Kangoo:
...og kannski fleiri.
Okkur leist best á þjá þrjá fyrsttöldu (þ.e. pabba leit best á þá hann hefur af einhverjum orsökum óbeit á frönskum bílum). Bensinn er í dýrari kantinum og sá sem við skoðuðum kostaði meira notaður en hinir kosta nýir, og því eru það Fólksvagninn og Fordinn sem við erum að pæla mest í.
Við höfum verið að skoða notaða bíla, og höfum sett okkur markmið: Þetta þarf að vera vel með farinn bíll, ekki of gamall og ekki of mikið ekinn, því ég vil eignast eitthvað sem ég get tekið með mér til útlanda án þess að hafa of miklar áhyggjur af því að hann bili úti á miðjum sveitavegi einhvers staðar í Portúgal. Ég er að hugsa mér ekki eldri en 2008 og ekki meira ekinn en 90-100 þúsund km. Verðhugmynd er á milli 1,2 til 2 milljónir, sem á alveg að geta gengið miðað við þá bíla sem ég hef skoðað.
En, sem sagt: ég vissi að skutlur væru til, en var svo sem ekkert að veita þeim eftirtekt þangað til ég fór að pæla í þessu. Nú sé ég þær alls staðar. Það er örugglega ekki langt í að ég geti greint á milli árgerða.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: húsbílar, pælingar | Facebook
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Stórsniðug hugmynd að fá sér bíl sem hægt er að samnýta sem heimilisbíl og ferðabíl, hlakka til að fylgjast með þessu ferli hjá þér :)
Kv.
Svava
Svava 22.10.2014 kl. 12:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.