Færsluflokkur: hrakfallabálkur

Þegar ég læstist út úr bílnum

dsc_9206.jpgMynd: Á leið norður.

Ég lofaði í opnunarfærslu þessarar umferðar bloggsins að segja nokkrar sögur úr ferðalögum sumarsins 2015. Þau einkenndust af vandræðagangi og óheppni, en voru samt líka skemmtileg og ég var einstaklega heppin með veður.

Þannig er að stórfjölskyldan á sumarbústað norður í landi. Þetta er gamall bóndabær sem við höfum verið að dunda við að gera upp undanfarinn áratug eða svo. Þó að svefnplássið nægi fyrir um 15 manns, þá hefur það verið svo að húsbílafólkið í fjölskyldunni hefur frekar kosið að sofa í bílunum úti á hlaði, aðallega af því að við nennum ekki að vera að bera rúmfötin inn úr bílunum og búa um okkur inni í húsi, og svo er gisting í húsbíl eins og að sofa í stórri og notalegri lokrekkju. Við einfaldlega leiðum rafmagnssnúru inn um einhvern gluggann á húsinu og stingum okkur í samband og höfum þá ljós, hita og kælingu á ískápunum án þess að ganga á rafgeyma og/eða gasbirgðir bílanna.

Ég var mætti þarna ásamt fleirum úr fjölskyldunni til að njóta samveru yfir helgi í góðu veðri, og svaf í bílnum, sem ég var enn að læra á. Ég vaknaði snemma um morguninn, fór úr náttfötunum og smeygði mér í buxur, inniskó og flísjakka. Ég skrapp því næst inn í hús til að athuga hvort fólk væri komið á fætur. Til þess aflæsti ég bílnum og notaði til þess fjarstýringuna. Ég hafði nefnilega ákveðið að það væri gott að venja mig á að læsa honum alltaf þó ég væri með hann á öruggum stað. Síðan fór ég út um aðra hliðarhurðina og lokaði henni á eftir mér. Lyklarnir urðu hins vegar eftir ofan á kæliskápnum, enda engin ástæða til að taka þá með mér, eða svo hélt ég.

Þeir sem eiga svona bíla vita hvað gerðist næst: þegar ég kom út aftur til að ná í hrein föt og handklæði til að fara í sturtu kom ég að bílnum læstum. Það er nefnilega svo með þessa bíla að ef þeim er aflæst með fjarstýringunni og framdyr ekki opnaðar, þá læsast þeir sjálfkrafa stuttu eftir að bílnum er lokað aftur (30 sekúndur eða 1 mínúta, man ekki hvort).

Þarna stóð ég, berfætt í inniskónum og ekki í neinu undir flísinni. Þetta var næstum því eins slæmt og þegar ég læsti mig út úr íbúðinni minni, berfætt og í pilsi og þunnum nærbol einum fata.

Ég var í hálfgerðu losti þegar ég sneri mér við og lullaði mér aftur inn í hús, og mér skilst að svipurinn á andlitinu á mér hafi verið eins og ég hefði séð draug, og hann bæði ljótan og leiðinlegan. Þetta hefði getað endað með ósköpum hefði ég verið ein þarna, enda var síminn minn líka inni í læstum bílnum. En eins og málin stóðu þá voru foreldrar mínir á staðnum og fleiri ættingjar, og von á fleirum seinna um daginn.

Það var þetta síðasta sem bjargaði málunum. Varalykillinn var nefnilega heima hjá foreldrum mínum í Kópavogi og föðurbróðir minn var með lykil að húsinu. Það besta var að hann ætlaði að koma norður þennan dag, en hafði seinkað, þannig að hann var ennþá í bænum þegar pabbi hringdi í hann. Honum var síðan fjarstýrt símleiðis að felustað lykilsins og mætti með hann norður rétt fyrir kvöldmat. Á meðan hélt ég mig inni við – með flísina rennda upp í háls – og hafði ofan af fyrir mér með spjalli og lestri.

Helgin leið síðan eins og best varð á kosið með góðum mat og samveru með fólkinu mínu, en hremmingunum var ekki lokið, ónei...

Save

Save

Save

Save


Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband