Færsluflokkur: hjólreiðamenn
Þriðjudagur, 23. september 2008
Dagur 16
Í dag var ég bara með vatnsleikfimi og göngu á stundaskránni, og bætti svo við einni umferð í tækjasalnum. Er mun hressari eftir nuddið og ætti gjörsamlega að vera full orku á fimmtudaginn, því ég verð aftur í nuddi á morgun. Ég ákvað að setja mér takmörk og fór í göngu 3, sem var eins gott, því ganga 4 koma til baka á sama tíma og við, og þar sem við vorum á réttum tíma, þá hljóta þau að hafa skokkað góðan part leiðarinnar, sem er ekki gott í þungum fjallgönguskóm. Fann ekki fyrir verknum, en ætla samt bara í göngu 3 á morgun. Nú hlýtur samningurinn við veðurguðina að vera útrunninn, því það rigndi allan tímann á meðan við vorum í göngunni, og úlpan mín var þung af vatni þegar ég kom til baka, en hélt mér samt þurri, sem er annað en ég get sagt um þartilgerða flík sem ég tók líka með mér. Við gengum fram á slatta af hálf-föllnum trjám - þegar jarðvegurinn er svona gegnsósa þarf ekki mjög mikið hvassviðri til að blása um koll stórum trjám. Kanínurnar í Ölfusborgum voru heldur ekki mjög hressar, húktu blautar í skjóli trjánna og hafa sjálfsagt látið sig dreyma um þurrar holur og birgðir af gulrótum.
Eftir hádegi var stundaskráin tóm hjá mér og ég skrapp því í bíltúr. Fór niður á Stokkseyri og Eyrarbakka og ætlaði að skoða Draugasetrið fræga, en það er þá komið á vetraropnunartíma og er bara opið á föstudagskvöldum og um helgar. Renndi í staðinná Selfoss og fór í búðir, þar á meðal litla og skemmtilega verslum sem heitir Alvörubúðin og selur í bland íslenskt og indverskt dót.
Hér hefur annars rignt linnulaust síðan í gær, og það er stífluð þakrenna fyrir utan gluggann hjá mér þannig að ég get ekki haft gluggann opinn. Eins og regnhljóðið er nú róandi og gott fyrir svefninn, þá er drrrrp! sluuuurpp! slabb! -hljóðið þegar fer að renna út úr stíflunni ekki skemmtilegt. Annað sem ekki er gott fyrir svefninn hérna er að þurfa að fara fram til að komast á klósettið. Ég er ein þeirra sem endilega þurfa að pissa á nóttunni, og það er frekar auðvelt að glaðvakna við það að þurfa að klæða sig fyrst í eitthvað svo maður mæti nú ekki nágrannanum á nærbuxunum frammi á gangi, fara síðan fram á ganginn sem er uppljómaður til að enginn geti nú villst í myrkrinu, og inn á klósettið sem er lýst með enn bjartari ljósum og svo illa upphitað að manni finnst maður vera með frostskemmdir á rassinum eftir leiðangur þangað. Mig hlakkar ekki til að koma hérna aftur í janúar upp á þetta, þannig að það getur verið að ég fái mér herbergi með klósetti þá.
hjólreiðamenn | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar